Ráðgjöf, stuðningur og meðferð fyrir þá

sem takast á við endurtekin bakslög í lífinu

Gleði frétt :-)

Fyrsta úthlutun Styrktarsjóðs geðheilbrigðis

Nýjar áttir: Tilraunaverkefni sem miðar að því að styrkja fyrrum fanga til að byggja upp getu og þrautseigju eftir afplánun

Verkefnið gengur út á eins og kemur fram í heiti þess að efla þrautseigju fanga eftir afplánun og þannig draga úr líkum á bakföllum og endurteknum athöfnum sem geta leitt til fangelsisvistar. Um er að ræða jaðarsettan hóp í samfélaginu sem býr við landlæga fordóma og jafnvel útskúfun. Það er mat fagráðs að verkefnið falli vel að öllum lykilviðmiðum sjóðsins sem eru valdefling notenda og aðstandenda, mannréttindum og jafnrétti og nýsköpun.

Samþykkt að styrkja verkefnið um 1.000.000 kr.

Á meðfylgjandi mynd má sjá styrkþega auk Héðins Unnsteinssonar, formanns stjórnar    (Mynd: Nanna Guðrún Bjarnadóttir)

Fyrir hönd Nýrra Átta - ráðgjafaþjónustu þakka ég fyrir úthlutunina úr Styrktarsjóði geðheilbrigðis, stjórn og starfsfólki Geðhjálpar og fagráði sjóðsins fyrir stuðninginn við verkefnið og þá viðurkenningu sem í því fellst. Jafnframt þakka ég Afstöðu - félagi fanga fyrir aðstoðina við að skapa verkefnið og hlakka til samstarfsins á komandi mánuðum og árum.
Þór Gíslason.

Frétt um úthlutun Styrktarsjóðs geðheilbrigðis má sjá á vef Geðhjálpar, en þar segir:

Fimmtudaginn 14. október fór fram fyrsta úthlutun Styrktarsjóðs geðheilbrigðis í Sunnusal Iðnó. Alls bárust 54 umsóknir til Styrktarsjóðs geðheilbrigðis samtals að upphæð 137.275.000 kr. Margar þessara umsókna þóttu til fyrirmyndar en sjóðurinn hafði yfir að ráða 10 m.kr. til þessarar fyrstu úthlutunar og því ljóst að ekki yrði hægt að styrkja mörg góð verkefni.

Um Styrktarsjóð geðheilbrigðis
Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á.
Í ár var horft sérstaklega til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir voru metnar:
a. Valdefling notenda
b. Valdefling aðstandenda
c. Mannréttindi og jafnrétti
d. Nýsköpun

Tilurð Styrktarsjóðs geðheilbrigðis
Árið 1998 eignaðist Geðhjálp fasteignina Túngötu 7 í Reykjavík. Húsnæðið var gjöf til félagsins frá ríkissjóði en ríkið eignaðist húsið við lát Önnu E.Ó. Johnsen, ekkju Gísla Johnsens konsúls. Það var vilji Gísla og Önnu að húsnæðið yrði notað fyrir heilbrigðistengda starfsemi. Geðhjálp starfaði í húsinu næstu 15 árin en viðhaldsþörf sligaði rekstur samtakanna og því var húsið selt árið 2013. Með því var hægt að greiða skuldir samtakanna að kaupa annað ódýrara og hentugra húsnæði. Frá þeim tíma hefur Geðhjálp ávaxtað það sem eftir stóð af söluhagnaðinum með það fyrir augum að hann kæmi að notum í góðum verkefnum í geðheilbrigðismálum. Þessar ráðstafanir gera Geðhjálp kleift að leggja til 100 milljóna króna stofnframlag í Styrktarsjóð geðheilbrigðis.

Úthlutun 2021
Fimm manna fagráð, skipað þeim Birni Hjálmarssyni, Hrannari Jónssyni, Huldu Dóra Styrmisdóttur, Svövu Arnardóttur og Helgu Sif Friðjónsdóttur, en hún var formaður fagráðsins, fór yfir umsóknirnar og lagði tillögur sínar í hendur stjórnar. Stjórn sjóðsins skipa þau: Héðinn Unnsteinsson, formaður, Guðrún Sigurjónsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason.

Nýjar Áttir - ráðgjafaþjónusta óskar öllum öðrum styrkþegum til hamingju. Þar er að finna 15 önnur flott og þörf verkefni í þágu geðræktar. Tæmandi lista má sjá á vef Geðhjálpar.