Siðareglur

Ég set fram siðareglur þessar þar sem ég tel brýnt að þeir sem starfa á sviði ráðgjafar/meðferðar hafi siðareglur sem þeir tileinki sér og starfi eftir.

Eftirfarandi siðareglur eru að öllu leyti grundvallaðar á siðareglum Markþjálfa og ICF og sjá má á vef ICF Iceland.
Á fyrri hluta árs 2022 mun ég klára fyrsta stigs námskeið í markþjálfun. Að þeim áfanga loknum mun ég uppfæra siðareglurnar til samræmis við siðareglur Markþjálfa og ICF.

I. hluti – Ábyrgð gagnvart viðskiptavinum

Sem ráðgjafi/meðferðaraðili mun ég:

  1. Skýra og tryggja að viðskiptavinur/-ir og kostunaraðili/-ar skilji forsendur og mögulegt virði ráðgjafar/meðferðar, eðli og takmarkanir trúnaðar, fjárhagslega tilhögun og aðra skilmála ráðgjafarinnar/meðferðarinnar, hvort sem það er við fyrsta samtal eða áður.
  2. Gera samning/samkomulag við viðskiptavini/-um og kostunaraðila/-um, þar sem tilgreind eru hlutverk, ábyrgð og réttindi allra aðila sem hlut eiga að máli, áður en þjónustan er veitt.
  3. Halda algeran trúnað við alla aðila eins og samið hefur verið um. Mér er kunnugt um og samþykki að hlíta viðeigandi lögum sem lúta að persónuupplýsingum og samskiptum.
  4. Hafa skýrt samkomulag um hvernig upplýsingum er miðlað á milli allra aðila sem hlut eiga að máli meðan á ráðgjöf/meðferð stendur.
  5. Hafa skýrt samkomulag, bæði við viðskiptavini og kostunaraðila eða tengda aðila, um aðstæður þar sem trúnaðarskylda á ekki við (ólögmætt athæfi, ef lög svo krefjast, gildur dómsúrskurður eða stefna; yfirvofandi eða líkleg hætta á sjálfsskaða eða að öðrum verði unnið mein, o.s.frv.). Ef ég hef rökstuddan grun um að einhver af fyrrgreindum atriðum eigi við þá þurfi ég e.t.v. að upplýsa viðeigandi yfirvöld.
  6. Takast á við hagsmunaárekstra eða hugsanlega hagsmunaárekstra við viðskiptavini mína og kostunaraðila, með hliðsjón af ráðgjafar/meðferðarsamningi og samtali. Þetta tekur til skipulagshlutverks, ábyrgðar, sambanda, skráningu, trúnaðar og annarra krafna um upplýsingagjöf.
  7. Viðhalda, geyma og farga öllum skrám, þ.m.t. rafræn skjöl og samskipti sem urðu til meðan á faglegum samskiptum stóð, stuðla þannig að trúnaði, öryggi og að persónuvernd sé í samræmi við lög og samþykktir. Einnig legg ég mig fram við að nota nýja og vaxandi tækni sem notuð er í fjar ráðgjafar/meðferðarþjónustu á réttan hátt og er kunnugt um þá margvíslegu siðferðisreglur sem um hana gilda.
  8. Vera vakandi fyrir merkjum um að viðskiptavinurinn kunni ekki lengur að hafa hag af ráðgjafar/meðferðarsambandinu. Ef svo er, að endurskoða sambandið eða hvetja viðskiptavininn/-na/kostunaraðilann/-na til að leita til annars ráðgjafa, viðeigandi fagaðila eða nota önnur meðferðarúrræði.
  9. Virða rétt allra aðila til að slíta ráðgjafar/meðferðarsambandinu hvenær sem er og af hvaða ástæðu sem er meðan á ráðgjöfinni/meðferðinni stendur, með fyrirvara um samningsákvæði.
  10. Vera á verði gagnvart því að hafa margs konar samninga og tengsl við sama viðskiptavininn/-na og kostunaraðila á sama tíma og forðast þannig hagsmunaárekstra.
  11. Vera meðvitaður um og bregðast við hverjum þeim valda- eða stöðumun á milli viðskiptavinarins og mín sem gæti komið til vegna menningar, tengsla, sálfræðilegra málefna eða samhengis.
  12. Greina viðskiptavini mínum frá mögulegri þóknun og öðrum hlunnindum sem ég kann að hljóta fyrir að vísa viðskiptavinum mínum til þriðja aðila.
  13. Tryggja stöðug gæði meðferðarinnar í hvaða sambandi sem er, án tillits til samþykktrar upphæðar eða þóknunar.
II. hluti – Ábyrgð gagnvart starfsemi og frammistöðu

Sem ráðgjafi/meðferðaraðili mun ég:

  1. Hlíta siðareglum markþjálfa (ICF) í öllum mínum samskiptum. Ef ég tek eftir mögulegu broti á reglunum af eigin hálfu, þá nálgast ég hlutaðeigandi af kurteisi og tek málið upp. Ef það leysir ekki vandann, vísa ég því til þess fagfélags sem ég tilheyri til að fá lausn mála.
  2. Krefjast þess að allt mitt starfsfólk framfylgi sömu siðareglum.
  3. Stefna að gæðum þjónustunnar með stöðugri persónulegri, faglegri og siðferðislegri þróun.
  4. Vera vakandi fyrir og viðurkenna persónulegar takmarkanir mínar eða kringumstæður sem gætu skert, brotið í bága við eða truflað störf mín sem ráðgjafi/meðferðaraðili eða fagleg sambönd á því sviði. Ég leita eftir stuðningi til að taka ákvörðun og, ef nauðsyn ber til, leita faglegrar aðstoðar. Þetta gæti haft í för með sér að stöðva þurfi tímabundið eða slíta ráðgjafar/meðferðarsambandi/-böndum mínum.
  5. Leysa alla hagsmunaárekstra eða mögulega hagsmunaárekstra með því að vinna að málinu með hlutaðeigandi aðilum, leita faglegrar aðstoðar, stöðva tímabundið eða ljúka hinu faglega sambandi.
  6. Viðhalda persónuvernd samstarfsaðila og nota upplýsingar um þá (tölvupóstföng, símanúmer o.s.frv.) aðeins með heimild frá þeim.
III. hluti – Ábyrgð gagnvart fagmennsku

Sem fagmaður á sviði ráðgjafar/meðferðar mun ég:

  1. Gera nákvæma grein fyrir starfshæfni minni, menntunarstigi, sérfræðikunnáttu og reynslu sem ráðgjafi/meðferðaraðili, sem og viðurkenndum réttindum mínum og vottunum.
  2. Setja fram í ræðu og riti eingöngu það sem satt er og rétt um hvað ég geri sem ráðgjafi/meðferðaraðili, það sem ráðgjöfin/meðferðin býður upp á og mögulegt virði ráðgjafar/meðferðar.
  3. Upplýsa um þær skyldur sem siðareglurnar kveða á um meðal þeirra sem þurfa að þekkja þær.
  4. Taka ábyrgð á því að setja skýr og viðeigandi mörk, sem taka tillit til ólíkra þjóðfélagshópa og menningarheima, í öllum mínum samskiptum.
  5. Ekki eiga í kynferðislegu eða rómantísku sambandi við viðskiptavin eða kostunaraðila. Ég sýni mikla aðgæslu þegar um er að ræða nánd svo hún sé viðeigandi fyrir ráðgjafar/meðferðarsambandið. Ég bregst við á viðeigandi hátt til að takast á við málið eða slít ráðgjafar/meðferðarsambandinu.
IV. hluti – Ábyrgð gagnvart samfélaginu

Sem fagmaður á sviði ráðgjafar/meðferðar mun ég:

  1. Forðast mismunun með því að hafa óhlutdrægni og jafnrétti að leiðarljósi í allri starfsemi og aðgerðum og virða reglur og menningarvenjur. Þetta tekur til, en takmarkast ekki við, mismunun vegna aldurs, kynþáttar, kyntjáningar, þjóðernis, kynhneigðar, trúar, uppruna, fötlunar eða hernaðarstöðu.
  2. Viðurkenna og virða framlag og hugverkarétt annarra og aðeins eigna mér mín eigin gögn. Ég skil að brot á þessari reglu geti leitt til lögsóknar af hálfu þriðja aðila.
  3. Sýna heiðarleika og fylgja viðurkenndum viðmiðum, sem henta viðfangsefninu, og starfa eins og hæfni mín leyfir þegar ég stýri rannsóknum og kynni þær.
  4. Vera vakandi fyrir áhrifum mínum og viðskiptavina minna á samfélagið. Ég leitast við að „gera gott“ frekar en að „forðast illt“.